Göngugarpar

Fyrir fólk á öllum aldri.

Ferðasögur

Sunnudagur 26.10.2008.

Í gær átti að fara einn hluta af Reykjaveginum. En sökum fannfergis á Djúpavatnsveginum þurftum við að finna okkur aðra leið. Lögðum við því við afleggjaran að Djúpavatni og gengum meðfram Sveifluhálsinum og lögðum svo á brattan og yfir hann eftir dágóða göngu. Það var mikið ævintýri að komast þarna yfir því snjórinn var slíkur. Sukkum við hvað eftir annað upp í klof. Eins og myndirnar sína rákumst við líka á tröllkarl og svo litla mús, sem helst vildi vera hjá okkur. Okkur langaði líka að taka hana heim.
Við sáum í þessari ferð, að líklegast getum við ekki farið alla Reykjavegsgönguna svona að vetrarlagi. Næsta ganga gæti verið í lagi, þar sem hún er auðrötuð og auðvelt að koma bílum upp að Kaldárseli. Sú ganga hefst við afleggjarann að Djúpavatni. En við viljum leggja áherslu á það, að reynist veður válynd, munum við bara finna okkur aðra leið. Við munum ákveða það á bílaplaninu þar sem við hittumst. Á þetta við um allar göngur yfir veturinn. Svo það er um að gera að mæta og sjá til. Gangan í gær var ein af þessum göngum sem standa upp úr. Ævintýri bak við hvern stein.

Sunnudagur 21 Sept ´08

Nokkur orð um gönguna í gær

Það leit bara nokkuð vel út með gönguveður þegar ég vaknaði í morgun um áttaleytið. En uppúr 9. gerði hressilega skúr. Má vera að hún hafi fællt fólk frá að mæta því við vorum aðeins 4. sem mættum við Fjarðarkaup.Það voru undirrituð og Júlía Tómas og Kristín. Við ákváðum að gengið skildi á Mávahlíðar frá Djúpavatnsvegi þar sem vegurinn uppað Keili er frekar erfiður fólksbílum. Það passaði þessi vegur er mikið greiðfærari og styttra að keyra. Örlítið lengra að ganga en þægileg leið með ótal götuslóðum. Nokkrar skúrið komu öðru hverju en þess á milli ljómaði sólin á nýþvegnum fjöllunum. Þetta var mjög fín ganga í góðum félagsskap einsog alltaf. Myndavélin mín varð eftir heima en Tómas tók nokkrar myndir sem vonandi rata inná síðuna síðar.

Með göngukveðjum Begga.

Sunnudagur 14. sept ´08
Sunnudagsmorgun og regnið lemur rúðuna. Hverjum dettur í hug að fara í langa göngu í dag????? Best að draga sængina vel upp fyrir haus og sofa bara áfram. Þetta var fyrsta hugsunin í gærmorgun þegar við Dagga vöknuðum og fórum að undirbúa fyrsta áfangan í fyrirhugaðri raðgöngu eftir Reykjaveginum. Eftir að hafa stappað stálinu í hvort annað héldum við út í rokið og rigninguna með öll þau regnföt sem við fundum. Við Fjarðarkaup mættu svo ekki fleiri ,en við létum það ekki á okkur fá heldur hélum eftir Reykjanesbrautinni í átt að Þorbirni. Það er svo skemmst frá því að segja að er við komum á svæðið fór sólin að skína og við röltum þessa 18 km í gífurlega fallegu haustveðri eins og myndirnar bera með sér. Við fengum svo far að bílnum þar sem við skildum hann eftir Við Þorbjörn.. Fyrsti áfangi er að baki og við hlökkum til að sjá fleiri í þeim næsta þó við höfum verið sammála um að við værum í þeim besta félagsskap sem við gætum hugsað okkur.

15 sept 2008.
Maggi og DaggaNokkur orð um gönguna í gær Það leit bara nokkuð vel út með gönguveður þegar ég vaknaði í morgun um áttaleytið. En uppúr 9. gerði hressilega skúr. Má vera að hún hafi fællt fólk frá að mæta því við vorum aðeins 4. sem mættum við Fjarðarkaup.Það voru undirrituð og Júlía Tómas og Kristín. Við ákváðum að gengið skildi á Mávahlíðar frá Djúpavatnsvegi þar sem vegurinn uppað Keili er frekar erfiður fólksbílum. Það passaði þessi vegur er mikið greiðfærari og styttra að keyra. Örlítið lengra að ganga en þægileg leið með ótal götuslóðum. Nokkrar skúrið komu öðru hverju en þess á milli ljómaði sólin á nýþvegnum fjöllunum. Þetta var mjög fín ganga í góðum félagsskap einsog alltaf. Myndavélin mín varð eftir heima en Tómas tók nokkrar myndir sem vonandi rata inná síðuna síðar. Með göngukveðjum Begga.Komið þið blessuð og sæl! Það leit vissulega ekki vel út með veður í morgun þegar við Eygló mættum upp við Össur. Enda mættu ekki fleiri göngugarpar.En við ákváðum nú samt að slá til og ganga leiðina sem var á dagskrá í dag. það beið jú bíll við Draugatjörn Og á leiðinni Nesjavallaveginn gerði hressilega skúr sem dró úr okkur kjarkinn! En þegar við lögðum af stað úr Botnadalnum var nærri stytt upp og þannig var það þessa rúmlega 3 tíma sem það tók okkur að ganga uppí Marardal og áfram að Draugatjörn Þó þokuský stigu villtan dans umhverfis Skeggja var útsýni gott til allra átta. Þetta reyndist hið besta gönguveður en þegar við vorum komnar í bílinn og að aka útá Hellisheiðina gerði slagveður sem fylgdi okkur í bæinn. Við vorum hæstánægðar að hafa drifið okkur.

Læt hér fylgja með nokkrar myndir kv Begga.

Úr spánarferð um Páska 2008

Dagur 1. 21 mars

Dagur 1. Við erum stödd í þorpiu sem heitir á íslensku Kastali Kastalanna. Íbúatala um 300 flestir eldra fólk. Það var frekar þungbúið veður þegar við litum útum gluggann á hótelherberginu okkar í morgun. Fjallið ofan við þorpið var þakið þoku ofan í miðjar hlíðar. Nokkur vonbrigði. Þegar við höfðum borðað frábæran morgunverð mættu svo Rúnar og Ingaló fararstjórarnir okkar og var svo lagt af stað hér frá hótelinu. Gengið var frá hótelinu og stefnan tekin á fjallið þrátt fyrir að útsýnið væri takmarkað. Þegar komið var í útjaður þorpsins kom í ljós að einn af göngugörpunum hafði gleymt sér og var á sandölum! En sá hinn sami er léttur á fæti og var örskamma stund að hlaupa heim á hótelið og fara í gönguskóna! Gangan upp fjallið var frekar létt göngustígar liggja í sveigjum. En nú herti vindinn og rigninguna og tóku fararstjórarnir þá ákvörðum að við færum ekki á toppinn. Gengum við þá niður hina hlið fjallsins. Þá dró strax úr rigningunni og vindinum og gátum við sest niður í tómum árfarvegi og borðað netið okkar sem var vel útilátið. Nokkur hrollur var í fólki svo stoppið var ekki langt. Nú komu í ljós hleðslur og hálfhrunuin hús. Rúnar og Ingaló tjáðu okkur að hluti af þessum rústum væri frá dögum Mára sem réðu á Spáni frá 700 e krist og fram og 14 öld en voru endanlega reknir úr landi 1610. Og mundum við sjá meira af slíkum byggingum í ferðinni. Márarnir komu frá botni Miðjarðarhafs. Þegar niður í dalinn kom gengum við framhjá fjárbúi þar sem ótólegir hundar voru bundnir og geltu ákaft að okkur féð var hinsvegar inni. Uppí þorpið vorum við svo kominn um kl:16 Nokkuð blaut og sumir nokkuð kaldir. En eftir góða sturtu og þurr föt var það gleymt. Í kvöld var mjög góður matur á borðum. Einhverjir úr hópnum ætluðu svo í messu í kvöld. En nú fara páskar í hönd með tilheyrandi hátíðahóldum hér. Við kusum að taka á okkur náðir Þessi dagur lofaði góðu. Fjölbreytt landslag góð fararstjórn góðir ferðafélagar. (það vissi ég reyndar fyrir) Og veðurspáin góð fyrir næstu daga.

 

 

 

 

 

Dagur 2. 22 mars

Eftir frábæran morgunverð á hótelinu okkar í Castell de Castells héldum við af stað í göngu dagsins. Eftir 10 mín. akstur skildum við bílana eftir á fáförnum sveitavegi. Við gengum fram hjá fíkju- og ólífutrám og dáðumst að því hversu vandvirknislega hjallarnir hafa verið hlaðnir. Þarna eru þeir búnir að standa í mörg hundruð ár og varla að steinn hafi fallið úr. Vorið var komið í allri sinni dýrð. Gróðurinn að vakna og alls konar blóm og runnar skörtuðu sínu fegursta. Fyrsti áfanginn var ótrúlegur steinbogi – LES ARCS – þar sem við mynduðum hvort annað í bak og fyrir. Áfram héldum við yfir heiði þar sem við gátum séð margra alda gamlar mannvistaleyfar frá því löngu fyrir Krist. Síðan tók við stígur í fjallshlíð þar sem allt var ótrúlega gróðri vaxið, Pálmar, Lavendel, Kóriander og fleira og fleira og ilmurinn var alveg stórkostlegur. . Framundan gnæfði ógnvænlega hár fjallstindur BOLULLA, sem ætlunin var að klífa og leist fólki misjafnlega vel á hugmyndina. Þegar að var komið virkaði þessi tindur ekki alveg jafn ógurlegur svo flestir úr hópunum ákváðu að freista uppgöngu til að skoða kastala sem trónaði þar á toppnum.

Á þessarri leið sáum við bæði hóp af geitum og mikil ummerki eftir villigölt. Undir kastalanum sem var að mestu hruninn var hvelfing sem ekki var hægt að komast inn í nema brjóta sér leið í gegnum þyrnirunna. Að sjálfsögðu gerðu undirrituð það, þó ekki væri nema til að hreykja sér af afrekinu við hina. Heim var haldið eftir fallegum dal. Taldist okkur til að þetta væri ca. 15-16 km. leið. Við heimkomuna í þorpið okkar var okkur boðið að skoða átthagasafn bæjarins, sem var fallegt lítið safn og auðsjáanlegt að þorpsbúar höfðu vandað vel til og voru stoltir af.

Eftir frábæran kvöldverð, kjúklinga að hætti hússins fórum við út á kirkjutorgið til að vera vitni af þeim sérstaka sið að fara í skrúðgöngu um þorpið með líkneski af Jesú og Maríu á föstudaginn langa. Það er ekki ofsögum sagt að þetta var ógleymanleg upplifun. Allir þorpsbúar mættir, flestir svartklæddir með stór kerti. Eftir að líkneskin, rósum og kertum skreytt voru borin út úr kirkjunni, silaðist mannfjöldinn á eftir með kertin sín tendruð. Lúðrasveit spilaði dapurlega tónlist og af og til hætti hún að spila og fólkið hóf upp söng. Svona gekk þetta aftur og aftur, hver þröng gatan eftir aðra. Myrkrið skollið á og eini ljósgjafinn voru kerti fólksins og kertin sem skreyttu líkneskin. Þessu hefðum við ekki fyrir nokkurn mun viljað missa af.

 

Dagur 3

 

Á þriðja degi, laugardegi, héldum við frá Castell de Castells og gengum um dal hinna illu örlaga, Barranco de Malafi. Nafnið er komið til af því að Spánarkonungur, Fillipus II, ákvað að kenna Márum um allt sem miður hafði farið á Spáni. Márar höfðu búið á Spáni öldum saman, samlagast Spánverjum og glætt menningu þeirra. Kóngur lét smala 200.000 Márum saman og rak þá inn í þennan langa, þrönga dal, umkringdan fjöllum á alla vegu, svo háum að varla kemst nokkurt kvikindi yfir nema fuglinn fljúgandi. Þar hélt konungur Márunum heilan vetur en lét síðan flytja þá á skipum yfir til N-Afríku.

Á botni þessa þrönga, langa dals var uppþornaður árfarvegur. Magga fannst það súrt í broti að ekki rynni þar á eða lækur, þá hefði hann getað selt aðgang að sínum víðfrægu vaðskóm.

Þarna gengum við í blíðskaparveðri, dáðumst að litskrúðugum fiðrildum og fallegum blómum, sáum eðlu og meira að segja gullarnarpar sem sveimaði hátt yfir dalnum. Sumir sáu fleiri erni sem reyndust svo vera krákur.

Við snæddum hádegisverðarlanglokuna okkar á sólríkum grasbala og skoðuðum síðan 8000 ára gamlar hellamyndir í hellum sem nefnast Pla de Pedracos. Slíkar hellamyndir finnast víða á þessu svæði.

Eftir rúmlega 13 km göngu fluttum við okkur um set, frá Castell de Castells til Tarbena, þar sem við skyldum gista næstu fjórar nætur á Hotel de Tarbena. Þegar allir höfðu baðast og hvílst borðuðum við flottan kvöldverð á notalegri krá, Can Pinet, í næstu götu við hótelið okkar. Þar skörtuðu Auður og Herdís nýju sjölunum sínum sem þær höfðum keypt um morguninn á markaðnum í Castell de Castells. Voru þær glæsilegar að vanda.

 

 

 

 

 

Dagur 4. Páskadagur

Herbergin okkar á Hotel de Tárbena voru mjög fín en því miður voru Maggi og Dagga sett niður í kjallara þar sem lægsta fólk rakst næstum því upp undir loft og þar var ekki laust við rakalykt. Maggi reyndi samt sem áður að telja fólki trú um að þetta væri hin glæsilegasta svíta. Við sem vorum á efstu hæð urðum um nóttina töluvert vör við veðrið; rok og rigningu.Þegar vaknað var að morgni og fólk rak nefið út kom í ljós að það var mjög svalt í veðri en bjart.

Þegar komið var niður í morgunmat kom í ljós að systurnar Magga og Dagga höfðu verið grand á því og keypt Nóa páskaegg á línuna, þetta vakti mikla ánægju. Vertinn tók brosandi á móti okkur og útskýrði hvað í boði væri;ristað brauð eða egg og beikon. Fólki leist almennt vel á þetta en það kom síðan í ljós að það tók starfsmennina nokkuð langan tíma að bera matinn fram og lét íslensk óþolinmæði aðeins á sér kræla.

Eftir mat var gengið upp á bílastæði, farið í bílana og ekið af stað. Leiðin var snotur svo vægt sé til orða tekið, t.d. var ekið um Guadalestdalinn og hjá Guadalestþorpinu að fjallinu Aitena og tók ferðin um 40 mínútur. Þar átti að ganga á Aitena sem er 1550 metra hátt en við byrjuðum í um 1000 metrum. Þegar við komum úr bílunum kom í ljós að það hafði kólnað töluvert og því ákváðu Júlía og Bjarni að sleppa fjallgöngunni því þau voru ekki nógu vel klædd.

Aðrir í hópnum héldu af stað og var fyrsta stopp í “snjóhúsi”,þ.e. í hlaðinni geymslu þar sem snjó var safnað og síðan selt í sjúkrahús og til ríkra niður við strönd. Áfram var haldið og stefndum við á La forata del hombre gordo sem útleggst á okkar ilhýra Raunir feita mannsins. Þetta er þröngt skarð sem þurfti að komast í gegnum til að geta haldið áfram. Allir komust þar í gegn þó sumir væru dálítið lofthræddir þar. Skömmu seinna var sest og fína nestið okkar snætt í sól en töluverðum kulda; um frostmark. Í nestistímanum var sögustund þar sem við fengum að vita um tilurðina á nafni fjallsins. Ung og fögur kóngsdóttir að nafni Aitena og ungur bóndasonur felldu hugi saman en kóngi þótti pilturinn ekki samboðinn dóttur sinni og lét því drepa hann. Síðan hafa ýmsir orðið varir við svartan, glæsilegan pardus á ferð um fjallið og telja líklegt að þar sé um unga bóndasoninn að ræða. Af kóngsdótturinni fögru er það hins vegar að segja að hún varð svo harmi slegin við dauða ástvinar síns að hún henti sér í djúpa gjá í fjallinu og síðan hefur fjallið verið nefnt eftir henni. Eftir þessa sögu var haldið af stað aftur. Skyggni var óvenjugott og sáum við eyjarnar Mallorca og Ibiza. Einnig sáum við mjög fallegt skarð í nálægu fjalli og kallast það Fótspor djöfulsins. En svo fóru að heyrast miklar þrumur og dökkt ský sást stefna hraðbyri í átt til okkar. Við áttum þvi von á rigningu en þegar skýið kom yfir okkur kom töluverð úrkoma en ekki í formi rigningar heldur snjóaði á okkur! Þá flýttum við för okkar, skunduðum sem hraðast niður aftur og gekk niðurferðin bæði hratt og vel.Þegar niður var komið og við höfðum sameinast Júlíu og Bjarna aftur var ekið af stað og var ætlunin að stoppa í Guadalest. En þar sem var frídagur var mikill fjöldi fólks þar og við fengum ekki bílastæði. Því var ekið aðeins lengra og stoppað þar sem okkur sýndist að við gætum fengið kaffi og jafnvel eytt nokkrum evrum en því miður var veitingastaðurinn fullur og lítið hægt að versla annað en eitthvað heilsusnakk. Því var ekið sem leið lá til Tárbena.

Þegar þangað kom slappaði fólk yfirleitt af,reyndi að ná í sig hita í baði eða á annan hátt. Matur á hótelinu var kl. 19:30. Þá kom í ljós að Júlía hafði fengið sömu frábæru hugmyndina og systurnar og allir fengu annað páskaegg. Fólk gat valið um 4 rétti og brögðuðust þeir allir ágætlega. Rúnar og Ingaló komu til okkar í matartímanum og við áttum notalega stund saman til kl. 22:30. Þá voru margir búnir að fá nóg og fóru í háttinn en einhverjir áttu enn smá orku eftir og ætluðu .að kíkja á þorpslífið

5. dagur
Annar í páskum. Í dag á að taka það rólega og vera í fríi frá gönguferðum. Eftir hið víðfræga beikon og egg sem tók sinn tíma að elda en því mun styttri að innbyrða, fór hópurinn saman í skoðunarferð um þorpið Tarben. Það var svo sem ekki mikið að sjá en við heimsóttum auðvitað hina látnu og horfðum niður frá þorpinu að Benidorm, en þangað var förinni heitið eftir hádegi. Við höfðum samið við Inguló og Rúnar að skutla okkur þangað. Ferðin tók um 45 mínútur. Frekar var nú svalt um morguninn en það hitnaði nú heldur betur þegar nær dró Benidorm. Hitinn fór upp í 23-24 gráður. Sumir busluðu í (ís)köldum sjónum, meðan aðrir létu sér nægja að trítla í sandinum eftir ströndinni. Aðeins var nú kíkt í búðir, allavega komu nokkrar dömur heim með þessar líka fínu hárkollur sem eiga ábyggilega eftir að koma sér vel á skemmtunum hjá Göngugörpum. Og einhverjir karlar komu heim með þessa líka fínu hatta. Hvað um það tíminn leið allt of hratt, svo hratt að einhverjir borðuðu bara pizzur sem keyptar voru í sneiðum á næsta götuhorni. Heim var haldið um kl. 6 og svei mér þá allir skiluðu sér á réttum tíma. Kvöldið var tekið rólega, fólk hittist í setustofunni á hótelinu og rabbaði saman. Svo fórum við auðvitað öll snemma í háttinn, að ég held.

Dagur 6.

Þriðjudaginn 25. mars gekk morgunmaturinn vel á Hotel de Tarbena við Götu Heilagrar Þrenningar (Carrer Santíssima Trinitat) í Tárbena. Kaffið var borið fram fljótt og vel og annað kom á borðið að lokum.

Klukkan 9:30 voru allir mættir á bílastæðið við menningarmiðstöðina (Casa de Cultura). Ferðinni var heitið í Vítisgjá; Barranco del Infierno sem er í dalnum Val de Laguart. Nafn dalsins er dregið af arabíska oðinu “Al-Agwar” sem þýðir “hellarnir” Röð þorpa hefur útsýni yfir dalinn: Campell, sem er neðst og við komum ekki nálægt, síðan Fleix og svo efst Benimaurell sem við tókum stefnuna á.

Á þessu svæði, á Caballo Verde, var síðasta vígi afkomenda máranna en þeir voru reknir úr landi samkvæmt tilskipun konungs; Filipusar III frá 29. september 1609. Sumir þeirra áttu sér 900 ára gamlar rætur í landinu og því neituðu margir að yfirgefa býli sín en voru að lokum yfirbugaðir með hervaldi. 1611 var dalurinn aftur byggður fóki. Það kom frá Mallorca og enn má finna mikið af ættarnöfnum sem eiga uppruna sinn á Mallorca í þorpunum við dalinn.

Á leiðinni til Benimaurell var stoppað á útsýnisstað (Mirador) við Coll de Rates. Þar nutum við útsýnisins með aðstoð forláta útsýnisskífu úr brenndum leir.

Þegar komið var til Benimaurell var bílunum lagt í u.þ.b. 540m hæð yfir sjávarmáli og gengið af stað í átt að bænum Fleix. Á leið út úr Benimaurell skoðuðum við þvottahús þeirra Benimaurellbúa. Þegar þorpið Fleix nálgaðist (við komum ekki inn í það) varð fyrir okkur þvottahús Fleixbúa sem stendur við lindina Font Grossa. Skammt frá Font Grossa var farið inn á márastíginn sem er gerður fyrir ferðalög með múldýr um Vítisgjá; Barranco del Infierno.

Stígurinn er settur þrepum sem eiga að auðvelda gönguna fyrir alla asna. Nokkrir í hópnum töldu þrepin samviskusamlega og reyndust þau vera 1.884 talsins. Er sú tala í ósamræmi við uppgefnar tölur sem mikið ósamræmi er reyndar á milli.

Leiðin var brött niðurávið og var fljótlega komið að kletti sem hefði verið farartálmi ef ekki væri gat í honum sem gengið var í gegnum. Þar var komin trébrú vegna tjóns sem flóðin s.l. haust höfðu valdið á stígnum sem liggur þarna í gegn. Þegar horft er til baka, eftir að komið er í gegnum gatið, má sjá fjölda af svöluhreiðrum í klettinum vinstramegin við gatið. Áfram var haldið niðurávið þar til komið var niður í dalbotn í u.þ.b. 190m hæð yfir sjávarmáli. Þá var að sjálfsögðu haldið upp aftur hinumegin þar til toppi var náð á svæði sem heitir Les Juvees d’ Enmig og er í u.þ.b. 510m hæð. Þar áðum við í stutta stund, við brunn hjá nýuppgerðu húsi og snæddum ávexti. Kom þar reynsla Heimis sem dælustjóri á olíuskipi að góðum notum því hann dældi úr brunninum á óaðfinnanlegan hátt.

Áfram var haldið og bráðlega lá leiðin niðurávið aftur. Gengið um stund þar til komið var að lindinni Font de reinos; Hinni konunglegu lind. Þar var sest niður og snæddar samlokur úr eldhúsi Rúnars og Ingulóar; okkar ágætu fararstjóra. Nutum við félagsskapar fjögurra annara ferðalanga sem einhver sagði að væru ítalir en einn þeirra var hundur.

Enn var haldið áfram niður í dalbotn sem nú var í um 290m hæð. Svo aftur upp að Les Juvees d’Alt í um 500m hæð. Nú vildu fararstjórar aðeins herða gönguna og létu það spyrjast að krárnar í Benimaurell lokuðu kl. 16:30. Þá var eins og við manninn mælt að hópurinn setti hraðamet þegar gengið var um síðasta dalinn þar sem klóaför Þess vonda voru áberandi á steinum. Lægsti punktur þess dals var í u.þ.b. 380m hæð og þegar gengið var upp úr honum aftur fórum við hæst í tæplega 600m hæð en lækkuðum okkur síðan aftur niðar að kránni í Benimaurell og vorum þá aftur komin í 540m hæð eftir 14km göngu.

Á kránni sem blessunarlega var opin lengur en leiðsögumennirnir héldu, nutum við veitinga og fylgdumst með múrara að störfum. Kvöldverður var snæddur á Hotel de Tarbena og voru flestir komnir snemma í háttinn. Ekki þó allir.

Sunnudagur 17. febrúar 2008

Kæru göngugarpar! Bara nokkur orð um gönguna í gær. Við vorum 4. sem lögðum upp frá Fjörukránni í Hafnarfirði í ágætu veðri. það rigndi öðru hverju en það truflaði okkur ekkert. Við gengum meðfram smábátahöfninni og út að Hvaleyrarlóni og þaðan útað dælustöðinni. En þaðan er hið besta útsýni yfir hluta Hafnarfjarðar og útí Garðahverfið og víðar. Áfram var haldið í kringum lónið en þar var fjölbreytt fuglalíf. Kaffi var svo drukkið við golfvöllinn. Að því búnu var meiningin að ganga í kringum hann en það reyndist ekki fært. Var þá láta þetta duga enda var nú farið að bæta í vind og rigningin að aukast. Gengum styðstu leið til baka uppað fjörukránni. Höfðum þá gengið í 2. tíma.

Sunnudagur 20.janúar 2008

Sólheimakot -Selvatn. Gilja og heiðaganga í 3-4 tíma.

Þenna dag var hugmyndin að ganga vítt og breytt um heiðina hringum Selvatn með viðkomu í bústaðnum hans Ingva. Við tróðum okkur í þá 3 jeppa sem voru til umráða og héldum af stað að Sólheimakoti. Ekki var alveg ljóst hvort við myndum hafa það þangað í gegnum djúpa skaflanna en allt gekk þó vel. Gengum við af stað í þeim mesta snjó sem við höfum séð árum saman. Skaflarnir náðu upp í klof og það gerði gönguna erfiðari en líka skemmtilegri því við vorum að kollsteypast í sköflunum sitt á hvað. Ekki reyndist heldur auðvelt að standa á fætur aftur eftir kollsteypurnar því alls staðar lét snjórinn undan og við duttum bara aftur. En þetta var þrælgaman og umhverfið hefði ekki getað verið fallegra. Trén sem svignuðu undan snjóþunga, himininn bleikur og blár, frosin strá við lækinn sem sjálfur var í klakaböndum. Gengum við á Selvatni sem var sæmilega vel frosið. (Eygló fór að vísu smá oní) og heim í bústaðinn hans Ingva komum við, með rjóðar kinnar og pínulítið kalt á puttum og tám. Þar var boðið upp á örlítið tár svona til að taka úr mesta hrollinn, síðan var kaffi drukkið og áfram haldið. Gengum við góðan hring um svæðið fyrir ofan Selvatn en þurftum að stytta upphaflega gönguáætlun þar sem svo seinfært var. Aftur var áð hjá Ingva, þessum líka sæta litla bústað og meira kaffi drukkið og jafnvel örlítið tár útí. Haldið var að bílunum og ekki var laust við að göngumenn væru orðnir þreyttir á þessu puði í sköflunum. En allir komu sáttir og glaðir að bílunum aftur og var það mál manna að enn skemmtilegra væri að klöngrast svona áfram í sköflunum en að ganga á sléttum vegi. Gaman væri að fara á þessar slóðir aftur að sumarlagi. Sérlega fallegt og forvitnilegt landsvæði.

Sunnudagur 16. desember Heiðmörk (óveðursganga)
Klukkan 10 f.h. hittust sex hughraustir (sumir segðu brjálaðir) göngugarpar við Össur. Áætlað hafði verið að ganga í Stardal en þar sem ekki var útséð um að líkamsþyngd allra myndi duga til að halda fólki á jörðinni var ákveðið að ganga svokallaðan óveðurshring í Heiðmörkinni.
Við fundum ekki mikið fyrir roki og rigningu á meðan við gengum inni á milli fallegra grenitrjáa. Við fundum okkur skjólsælan lund til að snæða nestið okkar, aðallega heimabakaðar smákökur bakaðar af Döggu og Magga. Fyrir ofan okkur æddi stormurinn í trjánum en við sátum í skjóli og heyrðum einungis hvininn í rokinu.
Þegar út á bersvæði var komið urðu sumir, sem ekki eiga nógu góðan regngalla, t.d. undirrituð, blautir inn að beini. Það kom þó ekki mikið að sök því að ekki var kuldanum fyrir að fara.
En viti menn: Allt í einu blasti við okkur grenitré, skreytt jólakúlum, glimmeri, jólaenglum og jólasveinum, mitt í rokinu og rigningunni í Heiðmörkinni! Gummi, sem yfirleitt er ekki mikið fyrir að skreyta jólatré, safnaði upp jólakúlum, sem fokið höfðu af trénu, og hengdi samviskusamlega aftur á tréð.
Göngunni lauk svo eftir tæpa tvo tíma. Menn voru blautir en ánægðir og hressir þegar þeir stigu upp í bíla sína og ég er ekki frá því að einhverjir hafi losnað við höfuðverkinn út í rokið.

Ganga um Sléttuhlíð 9/12

Við vorum 5. sem gengum um Sléttuhlíðina í morgun. Það var einsog við værum að ganga í stóru jólakorti af fegurstu gerð. Ég reyndi af bestu getu að fanga þetta á mynd og afrakturinn má sjá á myndasíðunni. Við hófum gönguna á því að ganga uppá hæð þannig að við sáum vestur á Snæfellsnes og suður í Keflavík. Snæfellsnesfjallgarðurinn minnti á ótal sykurtoppa baðaður í daufum bjarma rísandi sólar. Því miður náði ég ekki að fanga þetta á mynd. Ljósin meðfram Keflavíkurveginum minntu risastóra jólaseríu. Þegar við höfðum gengið nokkurn spöl eftir hæðinni og virt þessa dýrð fyrir okkur fórum við niður að bústöðunum og drukkum þar kaffi. Þar var hafið máls á því hvort ekki væri kominn tími á að fara að huga að þorrablóti göngugarpa í vetur og vorum við sammála um að upplagt væri að halda það í Vík ef þess væri kostur. Eftir kaffið gengum við svo eftir hestaslóðinni niður að fjárhúsinu þar sem bílarnir biðu okkar. Gangan tók nákvæmlega 2. tíma. Þetta var fegursta desemberganga sem ég hef tekið þátt í. Þegar heim kom var auðvelt að hefja smá jólahreingerningu því orkan sem svona ganga gefur er svo mikil!

Lifið heil………Kveðja Begga.

Hraunsnef 24-25 nóv´07

Jólamatur á Hraunsnefi.

Við héldum úr bænum í fallegri morgunbirtu. Esjan var í purpura-rauðbleikum lit með snjóhvíta lopahúfu sem hékk niður um vanga og yfir skein tunglið svo stórt að okkur fannst það vera að setjast á topp Akrafjalls.

Við vorum að leggja af stað í enn eina ferð Göngugarpa og stefndum á Hraunsnef í Borgarfirði þar sem við ætluðum að gista og njóta veitinga eftir göngu laugardagsins.

Ég gæti í mörgum orðum tíundað gönguna um Jafnaskarðsskóg en tel best að láta myndirnar tala hvað það varðar en verð þó að geta þess að leiðsögumennirnir þær Magga systir og Dagga stóðu sig með stakri prýði og leiddu hópinn um úfið hraun, gil og gljúfur, kjarr og skóga, yfir ár og læki uns ekki varð lengra komist og snerum við því til baka við bæinn Jafnaskarð að Grábrók þar sem gangan hófst fyrr um daginn. Við lögðum að baki 16 km á þessum fallega degi og vorum því sæl og svöng þegar við mættum að Hraunsnefi í jólamatinn klukkan 19 stundvíslega.

Hafi dagurinn verið góður þá tók nú fyrst sælan við fyrir alvöru. Við höfum öll farið í jólahlaðborð af ýmsu tagi í helstu veislusölum Reykjavíkur og víðar. Þegar þessari máltíð lauk þremur tímum síðar hurfu þau algerlega í skuggan fyrir þeim frábæru veitingum sem bornar voru fyrir okkur Göngugarpa þetta laugardagskvöld í nóvember 2007. Ég læt matseðilinn fljóta með til að gefa ykkur sem heima sátuð smá nasasjón af því sem við gæddum okkur á kvöldið góða í Hraunsnefi

1. Tvíreykt lamb með melónu.2. Síldarþrenna, rúgbrauð og meðlæti.3. Rauðspretta með sykruðum prelulauk og meðlæti.4. Reyktur silungur með lárperum og nýbökuðum bollum.5. Frikadeller með kartöflusalat og meðlæti.6. Innbökuð lifrakæfa með sveppum, bacon og rifsberjahlaupi.7. Bayonskinknka með hunangssinnepssósu og meðlæti.8. Pörusteik með brúnuðm kartöflum og meðlæti.9. Pestólamb með svepparjómasósu og fleiru meðlæti.10. Ris a la mande.11. Serrýfrómas.12. Kaffi og konfekt.

Eftir þessa glæsilegu máltíð sem borin var fram af einstakri lipurð og fagmennsku af staðarhöldurum og starfsfólki þess var gengið til náða í notalegu herbergjunum sem boðin eru til gistingar á þessu yndislega sveitahóteli í Borgarfirðinum

Morguninn eftir vöknuðum við ekki fyrr en um kl 09 og eftir að hafa tekið saman dótið okkar og klætt okkur í göngufötin héldum við til morgunverðar og skal það sérstaklega áréttað hversu fjölbreyttur og góður hann var og gaf ekki eftir því besta sem við höfum áður séð. Takk fyrir okkur.

Þegar við loks gátum fengið af okkur að yfirgefa Hraunsnef héldum við á ný í Jafnaskarðsskóg þar sem við gengum í rólegheitum í ca 2 tíma í fallegu veðri. Enn sem fyrr voru Magga og Dagga leiðsögumenn og héldu sínu striki þrátt fyrir efasemdaraddir þeirra sem með GPS tækin voru. Þær vissu sínu viti og létu ekki glepjast af tæknimönnum og vísuðu okkur á fallega staði og tignarleg gil.

Við héldum heim á leið um miðjan dag og komum í bæinn svolítið þreytt en södd og sæl með framúrskarandi ferð.

Maggi

Sveifluháls 18/11

Ferðasaga
Við vorum 4 sem mættum við Fjarðarkaup í morgun. Begga Eygló Yngvi og Áslaug. Var mjög ánægjulegt að sjá þau aftur eftir nokkuð langa fjarveru. Veðrið var einsog best verður á kosið miðað við árstíma. Nærri logn alveg heiðskýrt og lítisháttar frost. Þegar við komum upp að Sveifluhálsi biðu Tómas og Kristín þar Þannig að við vorum orðin 6. Gangan upp hálsinn var auðveld. Sólin var að koma upp og björgin tóku á sig kynjamyndir í morgunljómanum. Undirituð gerði tilraunir með að festa það á filmu. Og má sjá afraksturinn af því á myndasíðunni. Það blés nokkuð á okkur sem var bara hressandi. Útsýni var einstakt til allra átta. Snjóföl var í nærliggjandi fjöllum sem gerði þau enn tilkomumeiri. Kaffi var drukkið nærri hæsta toppnum. Eftir að á topppinn var komið sem reyndist vera í 317 metra hæð. Þá var stefnan tekin beint niður að Kleifavatni. Þar neðarlega í hlíðinni sáum við mjög fallegar klettamyndanir. Leiðin að bílunum var fljótfarin. Gengum í rúma 3. tíma um 6 km Fín ganga.Hlökkum til næstu helgar. Vonandi verða veðurguðirnir okkur jafnhliðhollir og í dag. Begga

04.11.2007

Maríuhöfn í Kjós

Mikið var nú gott eftir flensur og annan óáran að komast loks í göngu. Veðrið eins og best var á kosið. Skörp él, sem voru á við margar Spa-meðferðir og hressandi vindur sem blés af hafi og strauk létt um kinn. Nú erum við líka öllu fróðari um Maríuhöfn sem eitt sinn endur fyrir löngu var stærsti kaupstaður á Íslandi. Að vísu á 14. öld en enn má sjá svolitlar minjar um mannabústaði. Fjaran er skemmtileg, með skeljum og fallegum steinum og undirrituð kom heim með slagsíðu eftir að hafa stungið einum og einum stein í úlpuvasann. Hvítfyssandi öldurnar voru sérlega fallegar í dag. Hressandi ganga í góðum félagsskap sem kemur manni í sérlega gott skap. Hlakka til næstu göngu.

Dagga

18.10.07.

Greinin sem birtist eftir Döggu í blaðinu Fræ um daginn.

Félagsskapurinn Göngugarpar samanstendur af fólki úr öllum áttum . Við göngum saman með það í huga að hafa gaman af, njóta útiveru, sjá landið frá öðrum sjónarhóli en bara út um bílgluggann og hitta hvert annað.

Eina helgina í fyrrasumar var fyrirhuguð ferð um Sópandaskarð. Leiðin liggur frá Hörðudal og yfir í Langavatnsdal í Borgarfirði. Ákveðið var að gista á nýlegum gististað sem heitir Hraunsnef. Þar gistu sumir í tjaldi, aðrir í bændagistingu, sem reyndist vera sú alflottasta sem við höfðum séð hér á landi.

Við komum á laugardeginum og tókum stefnuna á samnefnt fjall, Hraunsnef, fyrir ofan bæinn. Fjallið Hraunsnef er svo sannarlega verðugt viðfangsefni þeim sem áhuga hafa á að virða fyrir sér landið sitt ofanfrá séð. Við blasir Borgarfjörðurinn nánast allur með hraunum, skógum, vötnum og ám. Hægt er að standa þar og reyna að átta sig á landslaginu, vita hvort eitt og eitt fjallsnafn rifjast ekki upp, bera sig saman við félagana og umfram allt njóta fegurðar.

Heimasætan á bænum, 12 ára, gerðist okkar leiðsögumaður upp á fjallið. Sjaldan höfum við haft yndislegri leiðsögumann. Eftir brölt upp á fjallið langaði hana að vita hvort við værum þreytt, því annars gæti hún sýnt okkur skemmtilegan foss í hlíðinni á móti. Það reyndist vera skemmtilegasti foss. Hægt var að fara bakvið fossinn, að vísu með smá brölti og reyndu það flestir, þótt ekki kæmu allir alveg þurrir til baka. En skemmtilegt var það.

Um kvöldið fórum við með tvo bíla að Langavatni og skildum þá þar eftir. Morguninn eftir létum við aka okkur í Hörðudal þar sem gangan hófst.

Dásamlegur dagur fór í hönd. Sólin skein og loftið titraði af söng fugla og suði flugna og fiðrilda. Við héldum vonglöð af stað í stuttbuxum og hlýrabolum. Gengum við um fallegt landslag. Þessi leið er mikið farin af hestamönnum en líklega eiga fáir aðrir þarna leið um.Við komum niður í þennan fallega dal, Langavatnsdal. Þar var fyrr á öldum þó nokkur byggð, en langt er síðan síðasti bærinn fór í eyði.

Þegar aðeins einn bær var eftir í dalnum bjuggu þar hjón með stálpaðri dóttur sinni. Eitt sinn, að áliðnum vetri, var venju fremur þröngt í búi, matur uppurinn og ofan á allt annað urðu þau eldlaus. Kom að því að húsbóndinn sá það eitt í stöðunni að freista þess að komast til byggða eftir eldi. Tók hann eina hestinn sem þau áttu og hélt af stað. Skömmu seinna gerði foráttuvitlaust veður og einhverjum dögum seinna kom hesturinn einn til baka. Var þá ljóst að húsbóndinn hafði orðið úti. Mæðgurnar áttu það eitt ráð til að farga hestinum og éta hann hráan til að komast af. Undir vorið, við fyrsta tækifæri, lögðu þær af stað til byggða og komust þangað við illan leik. Þá var nú manngæskan ekki meiri en það að þær voru dæmdar til Brimarhólmsvistar fyrir hrossakjötsát. Þar létu þær báðar lífið. Það er sérkennilegt að standa í svona afskekktum dal og hugsa til þeirra lífskjara sem forfeður okkar glímdu við.

Eftir dalnum rennur á ein sem í fyrstu var sakleysisleg og ljúf og hjalaði við fætur okkar þegar við óðum yfir hana. En brátt fór að rigna, ekki mikið bara nokkrir dropar, það tók því ekki einu sinni að fara í eitthvað utanyfir sig. Lengra var haldið og ekki hjá því komist að fara aftur yfir ána. Og aftur. Og aftur. Og enn aftur. Það fór svo að við þrömmuðum fram og aftur yfir ána, því að nú voru droparnir ekki lengur örfáir, heldur var komið steypiregn. Og allir litlu lækirnir sem höfðu runnið svo ljúft, stækkuðu og stækkuðu, blönduðu sér saman við ána sem belgdist út eins og púkinn á bitanum. Svo var komið að sumir nenntu ekki að fara í skó á milli heldur gengu berfættir yfir mýrar og móa. Regnið jókst og jókst. Við höfðum reynt að fylgja reiðleiðinni en vorum fyrir löngu búin að týna öllum slóðum í vatnselgnum. Þrátt fyrir að vera hundblaut fannst okkur þetta reglulega skemmtilegt. Það skipti ekki orðið neinu máli með skó eða föt, allt var orðið rennandi blautt.

Þegar við loks komum að bílunum vorum við harla fegin þeirri forsjá sem við höfðum haft að hafa þurr og hrein föt í bílunum. Flýttum við okkur að skipta og mikið var þægilegt að komast í allt þurrt. Loks settumst við inn í bílana og skyldi nú haldið af stað. En þá bar svo við, að þar sem við höfðum lagt bílunum kvöldið áður á harðan mel, var nú komin eðja og við það að setjast inn sökk annar bíllinn og bókstaflega lagðist á magann í drulluna. Það tók á að hafa sig aftur út í skýfallið, sökkva upp að hnjám í drulluna og fara að ýta. Það hafðist þegar allir tóku á því, en ekki var sjón á sjá okkur á eftir, með leðjuna upp fyrir haus.

Þessi ferð er ein af þeim mörgu eftirminnilegu sem við höfum farið. Við vorum skítug og þreytt en í skínandi skapi þegar við ókum af stað niður á þjóðveg 1. Gott var að koma aftur að Hraunsnefi og fá okkur eitthvað ljúffengt að borða af fjölbreyttum matseðli staðarins. Það er ólýsanlegt að sjá landið sitt á þennan hátt, fá tilfinningu fyrir lífinu, sem forfeður okkar lifðu, þegar ekki voru vegir og eina leiðin var oft að ganga á milli staða. Þeir voru ekki í vatnsheldum gönguskóm, með göngustafi og í öndunarúlpum, ekki með góða bakpoka sem sérstaklega styðja við bakið og innihalda gómsætt nesti. Þeirra útbúnaður var á annan veg og göngurnar ekki alltaf skemmtigöngur. Það er gott að hafa í huga.

Dagbjört Matthíasdóttir.

Hengilssvæðið 13.10.2007

Níu Göngugarpar mættu galvaskir við Össur kl 10. Haldið austur á Kýrdalsbrúnir og gengið áleiðis á Hengilinn. Þegar við vorum kominn inn undir hlíðar Hengilsins tók að rigna og síðar snjóa og var þá ákveðið að fresta för upp á Skeggja og halda þess í stað vestur í Marardal og varð það úr. Þegar við vorum komin áleiðis þangað var enn farið að versna veður og við tókum það ráð að ganga til baka um Klungrin og í Sporhellnadal og þaðan í Kýrdal þar sem bílarnir biðu okkar. Gengnir voru 8.5 km og vorum við komin aftur að Össuri um kl 14.00. Skemmtileg ferð eins og ávallt þar sem Göngugarpar fara sínar eigin leiðir.

Í þessarri göngu voru: Eygló, Begga, Birna, Herdís, Heimir, Alla, Binni, Dagga og Maggi.

Eygló 7. október 2007

Gleymdi að segja frá Guffa grís sem nú er með í öllum ferðum á sunnudögum. Í hann munum við safna til að koma á móts við ófyrirsjáanleg útgjöld eins og t.d. týnda vaðskó, týnt fólk eða þannig!!!!!!!!!

Sjáumst

Eygló 7. október 2007

Í dag 7. október 2007 kl. 10:55 var gengið upp á Vatnshlíðarhorn.

uppgangan hófst gegnt Sveifluhálsi. Þegar upp var komið var tekin kaffipása í brúnalogni og sólskini. Mættir voru 7 rauðstakkar með grænu og bláu ívafi þ.e.a.s. Eygló, Begga, Ragga, Herdís, Júlía, Lára Jóna og Áslaug. Þarna uppi leit Helgafellið út eins og fitubolla með minni fitubollu þ.e. Húsfellið á bak við sig. Áfram var gengið og komið niður í Breiðdal og gengið aftur að bílum, þa´var kl. 13:20. Allir ánægðir með þessa fínu göngu í þessu fína veðri.

Esja Laufaskörð

Sunnudaginn 8. júlí lögðum við Göngugarpar af stað upp Þverfellshorn í Esju og gengum eftir fjallinu í austurátt, yfir Laufaskörð og niður hjá Móskarðshnjúkum

Þegar lagt var af stað var þoka yfir Esjunni og var þá ákveðið að snúa við ef þokan reyndist enn svört og austurátt, yfir Laufaskörð og niður hjá Móskarðshnjúkum. þykk þegar á toppinn væri komið. En upp úr þokunni gengum við og á Þverfellshorninu var steikjandi hiti og glampandi sól. Freistandi hefði verið að leggjast út af og láta sólina baka sig, en það var ekki í boði, þar sem langur dagur var framundan. Gengum við upp á habungu sem er 914 m há og þaðan í átta ða Hátindi. Áfram héldum við yfir egghvasst grjót, og má með sanni segja að þessi leið sé hálfgerður leggjabrjótur. Þegar að Laufaskörðum kom var áð og kaffi drukkið og safnað smá kjarki, því ekki leist öllum jafn vel á að brölta yfir skörðin. En yfir fórum við og vorum sum fegin þegar þau voru afstaðin. síðan var haldið niður brattann til bílanna. Þessi ferð var 19 kílómetrar, erfið en ótrúlega skemmtileg og ekki spillti veðrið fyrir. Þetta verður ein af þeim ferðum sem lengi verður í minnum höfð.

Ferð á Snæfellsnes. Hvítasunnuferð Göngugarpa 2007 skráð af Herdísi og Beggu.

Laugardagur 26. maí.

Þegar við Heimir mættum á svæðið kl: 10 voru Lára Jóna og Jón Baldvin þar fyrir, höfðu komið kvöldinu áður.Síðan tíndist fólkið á staðinn. Þegar allir voru mættir og tilbúnir með sigg nesti var lagt af stað í göngu. Það var frekar hvasst en þurrt veður.Byrjað var á að skoða gjárnar á Arnarstapa, síðan var stefnan tekin á Hellnar en þangað voru nokkrum bílum ekið áður. Frá Hellnum var svo ekið út að Svalþúfu og Þúfnabjargi en ekki gengið að því. Þá var komið í ljós að Maggi aðaldriffjöðrin í ferðinni var orðin mjög veikur en gekk samt með okkur út í Dritvík, en þar gátu menn og konur spreytt sig á nokkrum steinum. Heimir og Sveinn gengu þar fram af vaskleik eins og sjá má á myndum hér á síðunni. Að þessu loknu ók hluti hópsins heim að Arnarfelli. En aðrir óku áfram útí Öndverðarnes og að Svörtuloftum og skoðuðu þar merkar minjar. Enn aðrir fóru á rúntinn að leita að flatkökum o.fl. Þetar allir voru komnir heim að Arnarfelli og grill kvöldsins undirbúið, þá tilkynntu Maggi og Dagga þau dapurlegu tíðindi að þau þyrftu að snúa heim því Maggi væri orðinn fárveikur.Grillið tókst vel og var glatt á hjalla undir borðum. Lára Jóna stóð fyrir ýmsum uppákomum sem voru myndaðar í bak og fyrir og má sjá afraksturinn hér á síðunni. Seinna um kvöldið hringdi svo Dagga og kom þá í ljós að þau höfðu tekið ranga kælitösku með hei. Hópurinn lét það ekki á sig fá og hélt sínu striki til kl.23 en þá fóru allir í rúmið. á sunnudagsmorgni kom svo í ljós að matarkistan sem Dagga og Maggi tóku í bæinn var í eigu Guffa bílasala og sonar hans og innihélt ekki aðeins nesti þeirra heldur hundsins þeirra líka!

Sunnudagur 27 maí

Afmælisdagur Öllu. Dagurinn var tekinn frekar snemma og fólk fór að taka sig til fyrir göngu dagsins. Við vorum hrædd við veðrið því það var bæði kalt og hvasst deginum áður. En veður var mun skaplegra það fundum við strax og við komum út.Lagt var af stað frá Arnarstapa rétt um kl:10:00 og ekið að rótum Snæfellsjökuls í um 500 m.hæð. Þar kom í ljós að það var hið besta gönguveður og fólk þurfti brátt að tæta fötin utan af sér. Gangan upp gekk bara nokkuð vel og nutum við útsýnisins og góða veðursins. Efri hluta leiðarinnar gengum við í glampandi sól og algeru logni bara dásamlegt! Uppgangan tók 3 ½ -4 tíma og snæddum við svo nestið okkar á fegursta útsýnisstað veraldar!Afmælisbarn dagsins (Alla) og tvær aðrar hörkukvensur (Herdís og Eygló) gátu síðan ekki stoppað og fórum við alver uppað efstu kúlunum, það var ekki leiðinlegt! Niðurgangan gekk eins og í sögu og voru margir komnir á ermalausa boli, slík var blíðan. Þessi ganga tók 1 ½ - 2 tíma. Þegar niður var komið fór hluti hópsins í heitan pott innað Lýsuhóli meðan aðrir slöppuðu af og fóru í sturtu. Þetta er skrifað að mestur hluta fyrir utan veitingastaðinn að Arnarfelli. Þar sem við bíðum eftir matnum okkar öll sólbrunnin en sæl sæl og meira sæl og full af orku jökulsins!P.S. Á leiðinni til baka úr heita pottinum á Lýsuhóli kviknaði sú hugmynd fjá Röggu að göngugarpar komu sér upp söfnunarbauk sem fylgdi bókinni okkar góðu. Þegar við bárum þessa hugmynd upp undir borðum á veitingastaðnum var þetta einróma samþykkt of ætlar Alla að taka að sér að útvega baukinn. Það var einnig samþykkt að hann bæri nafn bílasalans fræga sem svo óvænt kom við sögu hjá hópnum.

Helgafell sunnud. 22. apríl

Í gær, sunnudag fórum við Göngugarpar á Helgafell. það höfum við gert á hverju vori síðan við byrjuðum að ganga saman. Í þetta sinn fórum við ekki hina hefðbundnu leið, heldur héldum upp á fjallið úr gili einu sem blasir við fljótlega eftir að maður kemur að fjallinu frá Kaldárseli. Þetta gil er skemmtilegt uppgöngu. Eftir að hafa drukkið kaffi á toppnum og dáðst að útsýninu var haldið í átt að „Gatinu“ Gatið er stór steinbogi sem virðist vera hlaðinn stein fyrir stein. Þar er farið í gagn og gengið niður bratta hlíð með skriðum og klungri. Lofthræddum þótti nóg um á stundum en allir komust heilir niður, sælir og glaðir, með vor í hjart og sinni.

Hafravatn Skammidalur.

Sól og hiti var það fyrsta sem okkur datt í hug er við litum út í morgun. Munaði minnstu að sumir héldu af stað í stuttbuxum eftir að hafa gáð til veðurs. En af fenginni reynslu voru skjólfötin tekin með og komu þau að góðum notum þegar við héldum upp frá réttinni við Hafravatn. á leið okkar upp á Reykjfell og niður í Skammadal skiptust á skin og él þannig að okkur var ýmist sjóðandi heitt eða hrollkalt. Því var það að húfurnar og vettlingarnir voru á ferð og flugi, ýmist á höfði og höndum, eða þa´í vösunum og bakpokunum. Í svörtustu éljunum kom sér vel að tveir Göngugarpar höfðu GPS staðsetningartæki meðferðis, þannig að við komumst heilu og höldnu þessa skemmtilegu leið. Frábær ganga í allskonar veðrum með frábærum félögum.

Þorrablót Vík í Mýrdal 3.-4.febr. 07

Helgina 3.-4.febrúar var haldið hið árlega Þorrablót okkar Göngugarpa. Ekki var veðurútlitið björgulegt, þegar við lögðum af stað frá Reykjavík, grútsyfjuð í kolsvarta myrkri eldsnemma á laugardagsmorgun. En þegar til Víkur var komið, var komin hugur í okkur, framundan skemmtileg helgi með frábærum félögum. Við hittum leiðsögumanninn okkar han Sigurð Hjálmarsson, sem leiddu okkur um Fagradal, hans æskuslóðir. Hafði hann frá mörgu að segja, sem gaman var að fræðast um. Eftir langa göngu í alls konar veðri komum við að helli sem notaður hafði verið sem sauðaskjól. Opnaðist fyrir neðan ótrúlega falleg sýn, þar sem jökulsá kvíslaðist í ótal hlykkjum. Að vísu erum við búin að gleyma nafninu á þessum sérkennilega dal, við sem þetta skrifum. Eftirskemmtilega göngu héldum við mikið húllum